Fjölbreytt sjálfboðaliðastörf

Ungt fólk getur farið til Evrópu sem sjálfboðaliðar á vegum European Solidarity Corps og fá ferðakostnað, fæði og húsnæði innifalið

Það getur verið lærdómsríkt og gefandi að vera sjálfboðaliði enda tala margir sjálfboðaliðar um að vaxa mikið sem manneskjur við reynsluna. Á Íslandi er þetta ekki eins algengt og í Evrópu þar sem fólk fer oft að vinna mjög ungt, en að vera sjálfboðaliði er ódýr og skemmtileg leið til að sjá heiminn og prófa að búa í öðru landi. 

Í Evrópu er sérstök sjálfboðaliðaáætlun sem auðveldar fólki að fara sem sjálfboðaliðar milli Evrópulanda. Þessi áætlun heitir European Solidarity Corps.

European Solidarity Corps spratt út úr Erasmus+ áætluninni. Þessi sjálfboðaliðaáætlun er í boði fyrir 18-30 ára (18-35 ára í sérstökum mannúðarstörfum) og fá þátttakendur innifalið ferðakostnað, gistingu, fæði og vasapening. Samtökin sem taka á móti sjálfboðaliðunum eru vottuð af landskrifstofum European Solidarity Corps í hverju landi og fara umsóknir fram í gegnum evrópsku ungmennagáttina.

Fjölmörg önnur samtök og fyrirtæki sjá um að greiða leið fyrir sjálfboðaliða út um allan heim og er mikilvægt að skoða öll tækifæri vel - sérstaklega í þeim tilfellum þar sem rukkað er fyrir dvölina. Hægt er að leita að sjálfboðaliðastörfum í gegnum ýmsar leitarvélar á netinu, m.a. Workaway. 

Það þarf aldrei að borga þátttökugjald í sjálfboðaliðatækifæri á vegum European Solidarity Corps.

ETFOR-2Mynd 5