Upplýsingar um skiptinám og starfsnám

 SKIPTINÁM 

Fyrir háskólanema 

Kosturinn við að fara í skiptinám í háskóla er að fólk sparar það að greiða skólagjöld í erlenda skólanum. Skiptinám er nefnilega talið sem hluti af náminu við íslenska skólann og því eru bara greidd skólagjöld hér heima. Þetta er mjög gagnlegt ef skólagjöldin í erlenda skólanum eru há. Af því að þetta er hluti af náminu hér fer það að einhverju leyti eftir reglum námsbrautarinnar í íslenska skólanum og þeim samningum sem íslenski skólinn er með, hvert er hægt að fara og hvaða áfanga er hægt að taka.

Yfirleitt þarf að ljúka 1 námsári áður en farið er út og hægt er að dveljast við erlenda skólann í 1-2 annir. Best er að byrja undirbúning fyrir umsóknarferli strax á fyrstu önn. Umsóknir fara fram í samvinnu við alþjóðafulltrúa í hverjum skóla fyrir sig. Skiptinám er í boði hvort sem fólk er í bóknámi eða listnámi, á háskólastigi.

Að fara í skiptinám getur verið góð leið fyrir fólk sem finnst kostnaður við fullt nám erlendis vera hindrandi eða upplifir öryggi gagnvart því að hafa meira utanumhald.

Þegar sótt er um skiptinám til Evrópu er hægt að sækja um Erasmus+ styrk. 

Sótt er um Erasmus+ styrk til alþjóðafulltrúa hvers skóla. 

Styrkupphæð fer eftir áfangastað. Uppihaldsstyrkur er 490€ eða 540€ á mánuði. Ferðastyrkur er á bilinu 275–1.500€ eftir fjölda kílómetra frá Íslandi til áfangastaðar. Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann.

Nemendur geta auk þess sótt um viðbótarstyrk sem bætist ofan á mánaðarlegt uppihald ef þau eru með börn á framfæri, eru innflytjendur eða flóttafólk, vegna andlegs eða líkamlegs heilsufars, eða vegna fötlunar.

Auk þess er hægt að fá endurgreiddan kostnað sem til fellur vegna fötlunar og líkamlegs eða andlegs heilsufars, s.s. fylgdarmanneskju, flutning á búnaði, táknmálstúlkun o.s.fr.v. í samráði við alþjóðafulltrúa. Þá þarf að safna kvittunum og gera samning um aukinn styrk við skólann.

Auk þess er innifalinn ókeypis tungumálastuðningur, Online Linguistic Support, til að öðlast þekkingu í tungumáli þess lands þar sem dvalið er. Nánari upplýsingar má fá hjá alþjóðafulltrúum hvers skóla.

Skiptinám í mennta- og framhaldsskólum

Íslenskir mennta- og framhaldsskólar sem taka þátt í Erasmus+ samstarfi geta sent nemendur í styttri eða lengri dvalir í Evrópu. Það eru yfirleitt hópferðir frekar en einstaklingsferðir og yfirleitt ekki nemendur sem sækja um sem slíkir. Skoða þarf slíkar ferðir með skólunum sjálfum. 

Einstaklingar geta sótt um að fara í skiptinám í mennta- og framhaldsskólum á vegum AFS og við hvetjum áhugasöm til að setja sig í samband við AFS í gegnum vefinn þeirra. 

Ef þú ert í háskólanámi á Íslandi eða í iðnnámi eða listnámi á framhaldsskólastigi gætir þú athugað hjá þínum alþjóðafulltrúa hvort þú getir tekið starfsnám erlendis, frekar en á Íslandi. Í mörgum námsgreinum á þessum brautum er starfsnám hluti af námsgráðu og getur verið erfitt að finna starfsnemastöður innanlands. Hvort sem það er raunin eða ekki, þá er kjörið tækifæri að nýta sér Erasmus+ styrkinn til að taka starfsnámið í öðru landi.

Hægt er að fara í styttri (2 vikur-2 mánuðir) og lengri (2-12 mánuðir) dvalir. Styttri dvalir eru oft teknar á meðan námstíma stendur, t.d. til að fara á námskeið eða vinnustofur, en lengri dvalir eru oft eftir að eiginlegu námi lýkur. Í háskóla er mikilvægt að sækja um starfsnám fyrir brautskráningu en í framhaldsskólum er oft meiri sveigjanleiki á því hvenær sótt er um og má umsókn í sumum tilvikum berast innan við 12 mánuði frá útskrift.

Styrkupphæð fer eftir áfangastað. Uppihaldsstyrkur er ólíkur eftir því hvort er um starfsnám í háskóla eða á framhaldsskólastigi að ræða. Við hvetjum ykkur til að hafa samband við alþjóðafulltrúa fyrir nánari upplýsingar. Ferðastyrkur fer eftir fjölda kílómetra frá Íslandi til áfangastaðar. H

Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Í háskólahluta eiga sömu atriði við um viðbótarstyrki og var talið upp í skiptinámi.

Auk þess er innifalinn ókeypis tungumálastuðningur, Online Linguistic Support, til að öðlast þekkingu í tungumáli þess lands þar sem dvalið er. Nánari upplýsingar má fá hjá alþjóðafulltrúum hvers skóla.

Starfsnám með Erasmus+ er frábær leið fyrir nemendur og nýútskrifaða til að öðlast reynslu á vinnustað í öðru landi innan Evrópu. 

Í stuttu máli virkar það svona:

1. Umsókn:
Þú þarft að vera nemandi í menntastofnun sem tekur þátt í Erasmus+ eða hafa nýlega útskrifast frá slíkri stofnun. Þú sækir um starfsnám í gegnum menntastofnunina þína, sem hefur samning við fyrirtæki eða stofnanir í öðrum þátttökulöndum, eða þú finnur fyrirtækið og færð yfirlýsingu frá þeim um starfsnemastöðuna. 
2. Samningur:
Þegar þú hefur fundið starfsnámstækifæri, þá undirritar þú námssamning (e. Learning Agreement) sem skilgreinir hlutverk þitt, verkefni og markmið starfsnámsins.
3. Styrkur:
Erasmus+ veitir styrki til að hjálpa til við að mæta kostnaði við búsetu og ferðalög. Styrkurinn er mismunandi eftir löndum og lengd starfsnámsins.
4. Staðfesting:
Þú þarft að fá staðfestingu frá menntastofnuninni þinni og móttökustofnuninni/fyrirtækinu þar sem þú munt starfa.
5. Starfsnám:
Starfsnámið getur varað frá nokkrum vikum upp í 12 mánuði. Þú færð tækifæri til að þróa faglega hæfni, læra ný tungumál og kynnast nýrri menningu.
6. Eftirfylgni:
Eftir starfsnámið skilar þú skýrslu og færð viðurkenningu fyrir reynsluna, sem getur verið í formi ECTS eininga eða staðfestingar frá vinnuveitanda.

Athugaðu að í nýju Erasmus+ áætluninni 2021-2027 hafa breytingar átt sér stað og sum skilyrði, eins og þau fyrir starfsnám, kunna að hafa breyst. Því er mikilvægt að hafa samband við landskrifstofu Erasmus+ eða menntastofnunina þína til að fá nýjustu upplýsingarnar um þitt tiltekna áhugasvið.

STARFSNÁM