SKIPTINÁM 

Kosturinn við að fara í skiptinám er að þannig sparar fólk að greiða skólagjöld í erlenda skólanum. Skiptinám er nefnilega talið hluti af náminu við íslenska skólann og því fer það auðvitað að mörgu leyti eftir reglum námsbrautarinnar hér heima og samninga sem íslenski skólinn er með, hvert er hægt að fara og hvaða áfanga er hægt að taka. Þar sem skiptinám er hluti af námi við heimaskólann eru einungis borguð skólagjöld í þeim skóla. Yfirleitt þarf að ljúka 1 námsári áður en farið er út og hægt er að dveljast við erlenda skólann í 1-2 annir. Best er að byrja undirbúning fyrir umsóknarferli strax á fyrstu önn. Umsóknir fara fram í samvinnu við alþjóðafulltrúa í hverjum skóla fyrir sig. Skiptinám er í boði hvort sem fólk er í bóknámi eða listnámi, á háskólastigi.

Að fara í skiptinám getur verið góð leið fyrir fólk sem finnst kostnaður við fullt nám erlendis vera hindrandi eða upplifir öryggi gagnvart því að hafa meira utanumhald.

Athugið: Þegar sótt er um skiptinám til Evrópu er hægt að sækja um Erasmus+ styrk. Styrkupphæð fer eftir áfangastað. Uppihaldsstyrkur er 490€ eða 540€ á mánuði. Ferðastyrkur er á bilinu 275–1.500€ eftir fjölda kílómetra frá Íslandi til áfangastaðar. Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Hægt er að sækja um viðbótarstyrk vegna barna á vegum þátttakanda og vegna andlegs eða líkamlegs heilsufars eða fötlunar. Auk þess er innifalinn ókeypis tungumálastuðningur, Online Linguistic Support, til að öðlast þekkingu í tungumáli þess lands þar sem dvalið er. Nánari upplýsingar má fá hjá alþjóðafulltrúum hvers skóla.

Skiptinám í mennta- og framhaldsskólum er alla jafna á vegum AFS

Ef þú ert í háskólanámi á Íslandi eða í iðnnámi eða listnámi á framhaldsskólastigi gætir þú athugað hjá þínum alþjóðafulltrúa hvort þú getir tekið starfsnám erlendis, frekar en á Íslandi. Í mörgum námsgreinum á þessum brautum er starfsnám hluti af námsgráðu og getur verið erfitt að finna starfsnemastöður innanlands. Hvort sem það er raunin eða ekki, þá er kjörið tækifæri að nýta sér Erasmus+ styrkinn til að taka starfsnámið í öðru landi.

Hægt er að fara í styttri (2 vikur-2 mánuðir) og lengri (2-12 mánuðir) dvalir. Styttri dvalir eru oft teknar á meðan námstíma stendur, t.d. til að fara á námskeið eða vinnustofur, en lengri dvalir eru oft eftir að eiginlegu námi lýkur. Í háskóla er mikilvægt að sækja um starfsnám fyrir brautskráningu en í framhaldsskólum er oft meiri sveigjanleiki á því hvenær sótt er um og má umsókn í sumum tilvikum berast innan við 12 mánuði frá útskrift.

Styrkupphæð fer eftir áfangastað. Uppihaldsstyrkur er 640€ eða 690€ á mánuði. Ferðastyrkur er á bilinu 275–1.500€ eftir fjölda kílómetra frá Íslandi til áfangastaðar. Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Hægt er að sækja um viðbótarstyrk vegna barna á vegum þátttakanda og vegna andlegs eða líkamlegs heilsufars eða fötlunar. Auk þess er innifalinn ókeypis tungumálastuðningur, Online Linguistic Support, til að öðlast þekkingu í tungumáli þess lands þar sem dvalið er. Nánari upplýsingar má fá hjá alþjóðafulltrúum hvers skóla.