DiscoverEU - ókeypis lestarpassar fyrir ungt fólk - For information in English

DiscoverEU er leikur þar sem dregnir eru út ókeypis lestarpassar til að ferðast á sveigjanlegan hátt um Evrópu. Það kostar ekkert að taka þátt í happdrættinu, einungis þarf að skrá sig á evrópsku ungmennagáttinni og svara nokkrum spurningum. Opið er fyrir umsóknir tvisvar á ári og er leikurinn opinn fyrir ungt fólk sem er 18 ára. Hér er hægt að sjá hvenær er opið og hver það eru sem geta tekið þátt hverju sinni (m.v. fæðingardag) til að vinna ókeypis lestarpassa.

Sérstakar umsóknir fyrir ungt fólk sem þarf auka stuðning

Sérstök umsóknarlota er einu sinni á ári fyrir ungmenni sem þurfa auka stuðning til að geta tekið þátt. DiscoverEU Inclusion Action veitir möguleika á því að sækja styrk til að gera ferðalagið meira inngildandi. T.d. gætu einstaklingar með fatlanir, líkamlega eða andlega heilsufarsörðugleika þurft fylgdarmanneskju með í ferðina eða gætu þurft að standa straum af auka kostnaði við að flytja búnað. Hægt er að sækja um DiscoverEU Inclusion Action fyrir einstaklinga eða hópa allt að 5 saman (auk fylgdarfólks). Umsóknarferlið er öðruvísi og berast þessar umsóknir beint til Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi - ólíkt einstaklingsbundnu umsóknunum sem fara allar í sama pott. Athugið að óskað getur verið eftir vottorði til að rökstyðja stuðninginn. Endilega hafið samband við okkur ef þið eruð með spurningar um hvað þetta felur í sér, en nánari upplýsingar um umsóknarfrest má sjá á www.erasmusplus.is. 

Ferðast með lest til að uppgötva Evrópu 

Hvort er það Barcelona, ​​​​Aþena eða Prag sem heillar mest? Allar þessar borgir kannski?

(Leiðbeiningarnar hér að neðan eru almennar, þótt þær taki fram ákveðið ártal!)

Hvernig fer þetta fram? Ákveddu hvort þú viljir ferðast á eigin vegum eða með vinahóp. Ef þið eruð nokkur saman geta allt að 5 sótt um saman en þið þurfið öll að skrá ykkur á evrópsku ungmennagáttina þó það sé nóg að eitt af ykkur sendi inn umsókn fyrir hópinn. Skráðu þig á evrópsku ungmennagáttina og svaraðu spurningunum þar til að komast í pottinn. Leikurinn er opinn tvisvar á ári en fyrri úrdrátturinn er í apríl og sá síðari í október. Ef þú vinnur hefur ferðaskrifstofa samband við þig til að skipuleggja ferðina þína. Þú færð líka app með miðanum þínum, ferðaplan, afsláttarkort fyrir mat, gistingu og menningarupplifanir út um alla Evrópu. 48 pössum verður útdeilt til ungs fólks á Íslandi. Í leiknum þarftu að svara nokkrum einföldum krossaspurningum. Þegar dregið er út raðast þau með rétt svör efst og hin fara á biðlista. Ertu með spurningar? Hafðu endilega samband við okkur og við svörum þér um leið - en þú getur líka lesið um DiscoverEU á evrópsku ungmennagáttinni. Viltu ferðast en þarft fylgdarmanneskju eða annan stuðning vegna fötlunar eða heilsufars? Þú getur sótt um auka stuðning í gegnum DiscoverEU Inclusion Action

Hvernig er hægt að nota passann?

Passinn gildir í 30 daga á 12 mánaða tímabili. Hver einstaklingur ræður hvenær passinn er notaður á ferðatímabilinu og hversu lengi. Til dæmis:

  1. Vinahópur er dreginn út eftir happdrættið í október. Ferðatímabil þeirra hefst eftir áramót og gildir í heilt ár. Þau ákveða að geyma passann og ferðast í maí árið eftir, í tvær vikur og heimsækja 5 lönd.
  2. Einstaklingur er dreginn út eftir happdrættið í apríl. Ferðatímabilið byrjar að sumri og gildir í heilt ár. ofan. Þessi einstaklingur ákveður að fara strax af stað í ágúst 2022, ferðast í heilan mánuð en nýta tímann til að vera í tvær vikur í tveimur löndum.
  3. Manneskja frá Íslandi á vinkvár í Sviss sem líka fékk DiscoverEU passa. Íslendingurinn ákveður að nýta passann til að heimsækja vinkvárið í jólafríinu og saman fara þau frá Sviss og ferðast milli 3ja landa.

Fólk stendur sjálft straum að kostnaði við að borga gistingu og mat en passanum fylgir afsláttarkort sem gildir á 40.000 stöðum vítt og breitt um Evrópu.

Af hverju er verið að gefa ókeypis lestarmiða?

Fyrir nokkrum árum fengu tvö þýsk ungmenni frábæra hugmynd eftir að hafa ferðast um Evrópu með interrail: myndi það ekki skapa umburðarlyndi ef fleira ungt fólk hefði tækifæri til að kynnast betur þvert á landamæri, tungumál og menningu - og stuðla að umburðarlyndi? Úr varð frumkvæðisverkefnið DiscoverEU.

Til að berjast gegn hatri, fordómum og umburðarleysi ákvað ESB að prófa hugmyndina. DiscoverEU leit dagsins ljós árið 2018 og yfir 100.000 18 ára ungmenni tóku þátt í allra fyrsta úrdrættinum. 15.000 þeirra fengu 30 daga lestarpassa sem þau gátu notað nánast ótakmarkað á evrópskum lestarteinum. Fyrir mörg var þetta í fyrsta skipti sem þau ferðuðust til útlanda án fullorðinna og mörg sögðu frá því að hafa eignast nýja vini, orðið betri í tungumálum og fengið aukið sjálfstraust.

Ferðast á eigin vegum eða með vinum

DiscoverEU heppnaðist mjög vel og ESB ákvað að endurtaka leikinn á næstu árum. Í heimsfaraldrinum gat ungt fólk lítið sem ekkert ferðast og því var það mikið fagnaðarefni þegar DiscoverEU opnaði aftur. Árið 2022 var líka útnefnt Evrópuár unga fólksins til að halda upp á allt unga fólkið sem missti af svo miklu á meðan faraldurinn geisaði. Á sama tíma og Evrópuár unga fólksins hófst færðist DiscoverEU undir Erasmus+ áætlunina sem Ísland tekur þátt í. Þess vegna opnast DiscoverEU nú í fyrsta skipti fyrir okkur líka og gefur ungmennum á Íslandi tækifæri til að skoða heimsálfu sína á umhverfisvænan hátt. Það sem meira er, þau ungmenni sem vinna í leiknum á Íslandi fá einnig flugmiðann til og frá meginlandinu.

Ferðaskrifstofa hefur samband við þau sem vinna miða til að skipuleggja ferðalagið. Þegar fólk skráir sig til leiks getur það valið hvort það vill ferðast á eigin vegum eða með vinum sínum. Allt að 5 einstaklingar geta sótt um saman, þá er einn einstaklingur útnefndur hópstjóri og sér um umsóknina og hinir ferðafélagarnir skrá sig svo inn á umsókn hópstjórans. Ef hópurinn er dreginn út fá allir í hópnum miða!

Hvernig virkar þetta?

Sótt er um í gegnum evrópsku ungmennagáttina, þar sem má einnig finna allar nánari upplýsingar á ensku. Þú getur líka haft samband við okkur hvenær sem er með spurningar.

ÚTGEFANDI

Eurodesk á Íslandi 
Borgartún 30, 105 Reykjavík
+ 354 515 5800
Iceland
eurodeskis@eurodesk.eu

Gerð þessarar vefsíðu var styrkt með fjármagni frá framkvæmdastjórn ESB. Eurodesk.is endurspeglar einungis viðhorf höfundar (Eurodesk). Framkvæmdastjórnin ber ekki ábyrgð á neinni notkun þeirra upplýsinga sem hér finnast. 

© Eurodesk, 2020. Eurodesk is a registered trademark of Eurodesk Brussels Link.