Fjölmörg ungmenni hafa ferðast frá Íslandi síðan Ísland tók fyrst þátt í happdrættinu árið 2022, eða u.þ.b. 100 á ári. Róbert Smári Georgsson sem ferðist með besta vini sínum til tveggja landa segir að það sem staðið hafi upp úr í sinni ferð hafi verið að fara á rapp hátíðina Rolling Loud sem haldin var nálægt Vín í Austurríki auk þess að fara í skemmtigarð í Barcelona. Róbert bætti svo við að það hafi líka verið „bara ótrúlega gaman að ferðast tveir vinir saman“. Mesta áskorunin hefði verið að plana allt sjálfir en það hafi að vonum verið lærdómsríkt.
Vinkonurnar Vala og Helena heimsóttu Þýskaland, Tékkland, Austurríki, Slóvakíu, Ungverjaland, Slóveníu og enduðu á Ítalíu. Þær hafi lagt áherslu á að heimsækja staði sem þeim þætti annars ekki líklegt að heimsækja sjálfar, og nefndi Vala að hennar uppáhaldsstaðir hefðu verið stöðuvatnið Bled í Slóveníu og borgirnar Prag og Flórens. Þær mæltu með að gista á farfuglaheimilum til að kynnast öðru fólki á ferðalagi, fara í skemmtilegar dagsferðir og borða alltaf á allavega einum góðum veitingastað með þjóðlegum mat.
Uppáhalds minningin þeirra hafi þó verið fjallganga á fjallinu Wendelstein í Þýskalandi, sem samkvæmt upplýsingum átti að vera auðveld og þægileg. Umhverfið var vissulega fallegt en á leið upp fjallið tóku þær eftir því að þær sáu einungis aðra ferðalanga á leið niður. „Loksins komumst við á toppinn og þá föttum við að allir voru að taka kláf upp og taka svo gönguna niður á meðan við vorum að puðast við að ganga upp fjallið!“
Bæði Róbert og Vala voru sammála um að langa að ferðast meira eftir þessa Evrópuferð, en Róbert hefur nú áhuga á bakpokaferðalagi um Asíu en Vala horfir til Norður-Ameríku.