Ef það er eitthvað sem ég mæli með fyrir útskriftarnema 2025 þá er það að víkka sjóndeildarhringinn og fara að ferðast um Evrópu. Mig grunaði ekki hvað skyndiákvörðunin um að sækja um í DiscoverEU happdrættinu myndi hafa mikil áhrif á næsta árið. Það var ekki fyrr en við vorum dregnar út og allt í einu var ákvörðunin tekin, við tækjum allar reynsluár eftir útskrift og ætluðum á meginlandið í september!
Við ákváðum að fljúga út til Aþenu og svo heim frá München og svo átti að púsla saman rest þegar nær dregi. Nokkrum vikum seinna lögðumst við yfir plönin okkar og þá vönduðust málin… það ganga nefnilega næstum engar lestar frá Grikklandi. En við vorum útsjónarsamar 18 ára dömur svo fljótlega var komið nýtt plan: við ætluðum að sigla yfir til Ítalíu! Eftir á að hyggja held ég að siglingin hafi verið mesta brekka ferðalagsins og mæli ekki endilega með því að taka 10 tíma Superfast ferjuna yfir – nema að fólk sé búið hlýjum svefnpoka og föðurlandi – því það var skítakuldi úti á hafi.
Ferðalagið var stórskemmtilegt og við höfum svo sannarlega bætt hressilega við minningabankann. Við gistum á hostelum og gátum nýtt okkur airbnb (algjör snilld ef það fylgir þvottavél) og tókst að stíga fæti í 12 borgir á 23 dögum! Við erum óneitanlega reynslunni ríkari eftir þessa ferð, fengum að kynnast fjölbreyttri menningu, nýju fólki og frábærum mat. Svo er ég líka orðin voðalega hrifin af lestum, flugvélar eiga ekki roð við þeim. Sama hvaða borgir verða fyrir valinu og hvort fólk kýs að ferðast eitt eða í hóp þá get ég staðfest að þetta er í alla staði uppskrift að ógleymanlegu ævintýri.
– Inga Margrét