5. desember er tileinkaður sjálfboðaliðum og þeirra óeigingjarna starfi í þágu samfélagsins. Til að fagna deginum stóð Landskrifstofa European Solidarity Corps á Íslandi fyrir sérstökum viðburði þar sem áhersla var lögð á samstöðu og samfélagsleg áhrif evrópskra sjálfboðaliða sem taka þátt í European Solidarity Corps á Íslandi. Hann var skipulagður í samstarfi við Eurodesk og Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi.
Viðburðurinn hófst með móttöku hjá Sendinefnd Evrópusambandsins þar sem þær Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi, og Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, forstöðukona Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps á Íslandi, ávörpuðu gesti. Þær lögðu báðar áherslu á þakklæti í garð sjálfboðaliðanna, sem hafa lagt land undir fót til að láta gott af sér leiða. Þetta væri sú samstaða í verki sem þjóðir heims þurfa á að halda. Sjálfboðaliðunum var sérstaklega þakkað fyrir að velja Ísland sem áfangastað, ekki síst í svartasta skammdeginu þegar framlag þeirra til betra samfélags færði birtu og yl.
Hátt í 40 sjálfboðaliðar tóku þátt og kynntu tvö þeirra þau verkefni þau hafa verið að vinna að hér á landi. Annars vegar deildu sjálfboðaliðar hjá sveitarfélaginu Árborg reynslu sinni en þau hafa verið að sinna fjölbreyttum verkefnum innan frístundasviðs sveitarfélagsins. Hins vegar kynnti sjálfboðaliði hjá Samtökunum 78 aðkomu sína að því góða starfi sem þar fer fram þegar kemur að ráðgjöf, fræðslu og viðburðarhaldi fyrir hinsegin ungmenni á Íslandi. Viðburðinum lauk svo með notalegri stund þar sem Landsskrifstofan færði sjálfboðaliðunum lítinn þakklætisvott auk þess sem rölt var um miðbæinn og fræðst um íslenskar jólahefðir og matarmenningu.
Á hverju ári koma yfir 100 sjálfboðaliðar frá um 20 löndum til Íslands gegnum European Solidarity Corps til að taka þátt í verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Áætlunin er fyrir ungmenni á aldrinum 18-30 ára og geta íslensk ungmenni einnig tekið þátt í áætluninni. Frekari upplýsingar um þátttöku í sjálfboðastörfum má nálgast hér og hér.