Eurodesk hélt námskeið í vegglist fyrir ungt fólk um síðustu helgi í tilefni af evrópsku ungmennavikunni sem senn gengur í garð. Tilgangur námskeiðsins var að gefa ungu fólki tækifæri til að koma röddum sínum á framfæri í gegnum list.
Á námskeiðinu miðlaði Karen Ýr, vegglistakona og fyrrum sjálfboðaliða hjá European Solidarity Corps, af reynslu sinni og kenndi þátttakendum þá tækni sem hún notar við gerð listaverka af þessu tagi. Námskeiðið var fjármagnað af Eurodesk og endurgjaldslaust fyrir þátttakendur. Molinn Ungmennahús í Kópavogi bauð húsnæðið sitt fram fyrir námskeiðið og eiga miklar þakkir skilið, enda hefði þetta ekki gengið án þess.
Þátttakendur fengu leiðsögn við hugmyndavinnu, skissugerð, litaval og allskonar málningartækni sem gott er að kunna til að mála stór vegglistaverk. Þau voru átta talsins og nýttu listina til að koma hugðarefnum sínum á framfæri.
Verkin voru mjög fjölbreytt en þau þemu sem komu fram í list unga fólksins voru meðal annars andleg heilsa, sjálfsmynd, stríðsrekstur og friður, umhverfis- og dýraverndunarsjónarmið. Námskeiðið var því frábært tækifæri fyrir þetta unga og upprennandi listafólk að fá tækifæri til að láta skoðanir sínar heyrast – og sjást - í gegnum listformið.
Verkin voru til sýnis þann 8. maí 2024 á uppskeruhátíð Evrópusamstarfs sem haldin var í Kolaportinu í tilefni af 30 ára afmæli EES samningsins.
Magdalena Arnbjörnsdóttir: Án titils
Tóm, starandi augu fiskanna á myndinni vísa í vonleysið sem höfundur upplifir í líffræðinámi í háskóla, þar sem allar áherslur beinast að því að bjarga því sem bjargað verður í lífríki sem mannskepnan þjarmar sífellt meira að.
Robin Lübbers: Dumpster Duck
Hvað ef mávar væru handteknir fyrir að stela mat frá fólki? Bara (saklausar) vangaveltur.
Mariia Tambovtseva @kiselmanmari: Ljós
Ný kynslóð ungs fólks vex eins og blóm sem lýsir upp heiminn líkt og ljósgeisli í myrkrinu og gefur von.
Joanna Kraciuk: Án titils
Með þessu verki langaði höfundi að sýna fram á að þau atriði sem fólk telur vera sína helstu veikleika verði oft að þeirra helstu styrkleikum á endanum. Niðurrifsraddirnar geti orðið að uppbyggilegum stuðningsröddum með réttri sjálfsvinnu.
Hlín Hrannarsdóttir @hlin_illustrations: Tígur
Höfundur verksins vinnur í dag við gerð stafræns myndefnis en við gerð verksins rifjaði hún upp unglingsárin þegar hún teiknaði og málaði aðallega stór kattardýr. Verkið sækir innblástur í ást á húðflúrum, en hér blandar höfundur sama þemum úr húðflúrum, veggmyndum og myndlist.
Ástrós Ýr: Án titils
Á myndinni má sjá táknræna mynd af strút sem stingur höfðinu í sandinn á meðan sprengjuregn úr gosflöskum fellur af himnum ofan. Í forgrunni er sjónvarp með söngvakeppni og vill höfundur með því gagnrýna andvaraleysi almennings gagnvart hörmungum sem gerast á okkar dögum.
Sunneva Snorradóttir: Án titils
Höfundur verksins starfar við að hanna og teikna myndir fyrir aðra. Að geta gert þennan trúðakisa var táknrænt fyrir að leyfa sér að gera akkúrat það sem færði höfundi mesta gleðina þá stundina, en ekki eitthvað sem einhver annar fyrirskipaði.
.
Estelle Pollaert @estellillu: Kemur ljósið
Höfundur verksins vill færa fólki gleði og von, og sanna að það sé enn hægt að láta sig dreyma og vera skapandi í heimi sem virðist vera að hrynja í sundur. Blómin eru táknræn fyrir áköll okkar um frið, sátt og samlyndi í Evrópu og í heiminum.