Sú tímamót urðu í starfsemi Eurodesk á Íslandi í síðustu mánuði að gengið var til samstarfs við Hitt Húsið og því falið hlutverk svokallaðs margfaldara (e. multiplier). Eurodesk er eitt af stoðverkefnum Erasmus+ og sér um að veita ungu fólki upplýsingar um tækifæri til að fara til útlanda. Með samningnum tekur Hitt Húsið að sér það hlutverk að miðla áfram þessum upplýsingum til sinna skjólstæðinga.
Hitt húsið er kjörinn aðili í þetta hlutverk, enda sinna þau margvíslegum störfum í þágu ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Hjá þeim má finna jafningjafræðslu og frístundastarf fatlaðra sem og atvinnuráðgjöf, ýmis námskeið og frábæra aðstöðu.
Eurodesk mun kynna starfsfólki Hins hússins fyrir öllum þeim ólíku leiðum sem standa ungu fólki til boða til að fara til Evrópu svo þau geti komið þeim á framfæri við breiðari hóp. Auk þess að fá þjálfun í að fjalla um tækifærin mun Hitt húsið einnig fá aðgang að víðfeðmu neti æskulýðssamtaka víðsvegar um Evrópu, sem auðveldar þeim að finna samstarfsaðila. Auk þess vonast Hitt Húsið til að geta verið tengiliður við önnur ungmennahús víðs vegar um landið til að bæta aðgengi að tækifærum erlendis enn frekar.
Þetta er í fyrsta skipti sem samningur af þessu tagi er gerður á Íslandi en í flestum Evrópulöndum vinnur Eurodesk með fjölmörgum innlendum tengiliðum sem yfirleitt eru samtök eða stofnanir sem vinna beint með ungu fólki.