Við eyðum alla jafna miklum tíma dags skoðandi samfélagsmiðla og almennt flakkandi um netið. Það er rosalega gott að nýta netið til að halda tengslum við vini nær og fjær en netið gagnast líka í fréttaflutning og til að miðla því heitasta í tónlist og tísku.

Ein besta leiðin til að vera öruggur á netinu er að við séum sjálf meðvituð um kosti og galla internetsins – og hvað við getum gert í því sem við rekum okkur á. Við þurfum að vera meðvituð um að persónulegar upplýsingar sem við setjum á netið geta farið víða og því er gott að vera gagnrýninn á það hjá sjálfum sér hvað fer á vefsíður og samfélagsmiðla. Erum við meðvituð um það hver sér það sem við setjum á netið – og er okkur sama um það hverjir hafa aðgang að því? Hér eru gagnlegar upplýsingar um hvernig er hægt að stilla gagnaleynd sína á Snapchat, Facebook, Instagram og Twitter.

© Christian Wiediger

Grooming

Það þekkist að eldri einstaklingar misnoti aðstöðu sína á netinu gagnvart yngri einstaklingum. Þá reyna einstaklingarnir að byggja sér traust þeirra til að fá þá til að senda sér viðkvæmar upplýsingar eða myndir sem þeir geta svo notað til að kúga einstaklingana um fjármuni eða gjörðir. Það er því mikilvægt að loka á samskipti ef upp kemur grunur að tilgangurinn sé þessi.

 

Hatursorðræða

Hatursorðræða er stórt vandamál víða á netinu í dag. Hún felur yfirleitt í sér að neikvæðar, niðrandi eða hatursfullar athugasemdir eða færslur eru alhæfðar um hóp af fólki eða þá sem tilheyra þeim hóp. Í dag birtist hatursorðræða oftast í garð innflytjenda, þeirra sem tilheyra LGBTQIA+ samfélaginu og múslimum. Til að sporna gegn hatursorðræðu er mikilvægt að notendur tilkynni slíkar athugasemdir til miðlanna eða forritana sem þær birtast á. Evrópuráðið heldur úti vef um herferð sem vekur athygli á mikilvægi þess að tala gegn hatursorðræðu, en herferðin ber yfirskriftina „No Hate Speech Campaign“ fyrir þau sem vilja kynna sér þetta málefni frekar. Á Íslandi er þessi herferð kölluð Ekkert hatur - orðum fylgir ábyrgð og má lesa meira um það á vef SAFT og hjá Æskulýðsvettvanginum.

 

Neteinelti

Annað vandamál sem gjarnan sprettur upp á netinu er neteinelti. Í því verður einstaklingur fyrir hótunum, niðurlægingu eða er særður af völdum annars einstaklings eða hóps einstaklinga. Neteinelti getur átt sér stað hvenær sem er og hvar sem er og oft geta gerendur athafnað sig undir nafnleynd. Þótt að oft séu fleiri vitni að neteinelti þá eru þau kannski ekki eins aðgengileg og þegar einelti á sér stað utan internetsins. Það er því mikilvægt að tilkynna alltaf neteinelti og taka afstöðu á móti því verði maður vitni af því. Inni á heimasíðum SAFT og Æskulýðsvettvangsins eru mjög gagnlegar upplýsingar fyrir þolendur neteineltis og þá sem verða vitni að því, hvernig er best að bregðast við og tilkynna um það.

 

Falsfréttir

Falsfréttir eru svo annar angi þess sem á sér stað á internetinu og mikið er í umræðunni nú. Það er auðvelt að setja upplýsingar í þann búning að þær líti út á trúverðugan hátt og því er það á okkar eigin ábyrgð að skoða það sem kemur fram með gagnrýnum augum. Stundum eru þær upplýsingar sem við rekum okkur á viljandi settar fram til að blekkja eða afvegaleiða fólk. Stundum eru upplýsingar beinlínis rangar en það getur líka verið vegna skorts á réttum heimildum eða þekkingarleysis þess sem skrifar. Hér eru nokkrir punktar til að hafa í huga

  • Hver skrifaði upplýsingarnar og hvert er markmið þess einstakling að dreifa þeim?
  • Eru upplýsingar birtar á ritrýndum miðli eða persónulegri síðu?
  • Eru sömu upplýsingar birtar hjá öðrum traustverðugum miðlum?

Það er mikilvægt að styrkja sína eigin gagnrýnu hugsun til að aðgreina réttar upplýsingar frá falsfréttum.

Ein gullin regla, ef það er of gott eða of slæmt til að vera satt, þá er það líklegast ekki satt.

Viltu spila leik sem þjálfar þig í stafrænni færni og skilningi á falsfréttum? Fake Off er app sem var hannað í samstarfi við Erasmus+ og inniheldur skemmtilegt quiz og leik um falsfréttir og netöryggi.