Sumarið 2020 gáfu Eurodesk og Eryica út rit sem safnar saman helstu upplýsingum, ráðleggingum og framúrskarandi verkefnum sem sýna hvernig ungmennastarf getur verið gert umhverfisvænna og hvatt til áhuga ungs fólks á verndun jarðar og loftlagsbreytingum. Ritið er hægt að nálgast að kostnaðarlausu á netinu hér. Við höfum tekið saman nokkra punkta úr kaflanum um góð ráð til að kynna sjálfbærni í umhverfismálum og umhverfisvænar venjur í ungmennastarfi.
Loftslagskvíði er alvöru vandamál hjá ungu fólki í dag. Þess vegna er gott að hafa í huga að fara varlega að því hvernig þetta alheimsvandamál er kynnt. Það skiptir máli að loftlagsváin sé útskýrð á mannamáli svo allir þættir séu skiljanlegir. Svo er betra að segja bæði frá vandamálunum sem að steðja að heiminum og mögulegum lausnum við þeim - frekar en að benda alltaf bara á vandamálin. Það getur skilið fólk eftir með áhyggjur og vonleysi um framtíðina.
Hvernig við tökumst á við loftlagsbreytingar ætti að vera sett fram á uppbyggilegan og jákvæðan hátt sem hvetur fleiri til að breyta lífstíl sínum í átt að meiri sjálfbærni, því þau sjá að þau geta gert eitthvað gagn.
Í riti Eurodesk og Eryicu er einnig bent á að gott sé að nota óhefðbundnar kennsluaðferðir til að kynna sjálfbærni fyrir ungu fólki. T.d. að fara
út í náttúruna og skoða breytingar í nærumhverfi sínu eða ræða notuð föt og heimsækja flokkunarstöðvar. Þá er hægt að vera með vinnustofur þar sem gamlir hlutir fá nýtt líf, skipst er á notuðu dóti og fötum og hvatt til umhverfisvænnar matarneyslu.
Ritið bendir einnig á nokkra skemmtilega tengla eins og Nasa‘s Kids Club þar sem er að finna ýmsa leiki og fræðsluefni um loftlagsbreytingar, vefurinn Our Planet, Our Future sem framkvæmdastjórn ESB lét útbúa og heimasíða Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sem helguð er upplýsingum handa ungu fólki. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur ritið en þar eru líka talin upp mörg áhugaverð verkefni sem haldin hafa verið um alla Evrópu sem gætu verið hvati til starfs hér innanlands.