Þótt ekki sé hægt að bölsótast út í allt plast þá veldur einnota plast þó sérstaklega miklum skaða í umhverfi okkar. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð um hvernig þú getur hjálpað við að takast á við það brýna mál sem við stöndum frammi fyrir, að vernda plánetuna okkar.
Plast er alls staðar: allt frá því að vera í fataefnum yfir í tölvur og heimilistæki. Það er að finna í hlutum sem þú myndir aldrei búast við eins. Vissir þú að plast er notað til að innsigla tepoka eða getur verið að finna í osti?
Plast varð upphaflega mjög vinsælt vegna þess að það er fjölhæft, ódýrt í framleiðslu og hefur marga mismunandi notkunarmöguleika. Og alls ekki allar tegundir plasts eru slæmar: plast er t.d. notað í læknisfræðilegum tilgangi, í flutningstækjum og í flestum heimilistækjunum okkar, sem erfitt væri að útbúa á annan hátt.
Árið 1988 var sett á fót kerfi til að auðvelda endurvinnslu en það tiltekur 7 mismunandi tegundir af plasti. Vert er að nefna að hugtakið lífrænt plast eða „lífplast“ (bio plastics) getur stundum verið villandi. Þrátt fyrir að margt lífplast sé búið til úr endurvinnanlegum efnum sem brotna niður í náttúrunni, gera það ekki öll. Hugtakið merkir einfaldlega að efni plastsins kemur ekki frá steingervingum úr jarðlögum, eins og venjulegt plast, heldur er notað plöntubundið efni, t.d. maíssterkja og kartöflur. Hins vegar er oft stór hluti þess plasts líka úr mengandi efnum, s.s. olíu, gasi og kolum. Þess vegna verður að hafa í huga að sumt „lífrænt plast“ er ekki minna mengandi vegna þess að það brotnar ekki niður í sjónum, alveg eins og ólífrænt plast. Meira um þetta hér.
Þess vegna er sagt að plastúrgangur endist að eilífu, því eftir niðurbrot hans heldur hann áfram að vera til í litlum ögnum sem verða ósýnilegar fyrir mannsaugað. Örplast er að finna alls staðar og er eitrað fyrir allar tegundir, líka menn. Það er ekki til nein töfralausn sem lætur plast hverfa, endurvinnsla er takmörkuð og getur jafnvel orðið mjög skaðleg fyrir önnur samfélög langt frá okkar.
Þetta er ástæðan fyrir því að ein skjótasta leiðin til að draga úr plastnotkun er að taka í gegn notkun okkar á einnota plasti. Lönd EES eru meðvituð um skaðann sem einnota plast veldur plánetunni okkar og þess vegna samþykkti Evrópuþingið árið 2019 ný lög sem banna einnota plasthluti. Árið 2021 verða t.d. öll einnota plasthnífapör, eyrnapinnar, rör og hrærur bannaðar.
En hvað getum við gert sem einstaklingar?
Það getur verið erfiðara en að segja það að breyta daglegum venjum og að forðast einnota plast, en hér eru nokkur ráð sem gætu einfaldað það:
- Vera smá retro: Fyrir ekki svo mörgum árum var plast ekki alls staðar og samt tóku forfeður okkar, t.d. afi og amma, upp á ýmsu skemmtilegu. Þau fóru og versluðu með sína eigin margnota poka, fóru í lautarferðir með fjölnota hnífapör og margt fleira. Það er alveg hægt að púlla þetta og vera smá vintage.
- Búa til leik úr þessu: Skoraðu á þig og vini þína að draga úr einnota plastneyslu. Þú getur reynt að safna saman í krukku öllu einnota plastinu sem þú notar í viku og athugað hver af vinunum á krukkuna sem minnst er í. Þetta mun einnig hjálpa þér að gera þér grein fyrir hversu mikið þú notar af einnota plasti og hver veit nema þú verðir undrandi á því hvað það er í raun mikið.
- Leyfa forvitni að njóta sín og finna aðra valkosti: Það er ekkert að því að drekka gosið sitt með röri, en af hverju ekki að nota rör úr bambus? eða úr stáli, pappír eða gleri? Þú getur jafnvel notað rör úr pasta! (Sorry Ítalir, passar kannski ekki við ítalskar matarvenjur).
- Hafa sína eigin umhverfisvænu hluti meðferðis: Með því að eignast fjölnota innkaupapoka, kaffikrús, bambus- eða málmhnífapör og margnota vatnsflösku kemstu ansi langt. Ps. þú mátt alveg taka margnota vatnsflösku með í ferðalög, hún verður bara að vera tóm í öryggisleitinni á flugvellinum en svo geturðu fyllt á hana.
- Vera skapandi: Haltu áfram að læra og kynna þér nýja möguleika sem koma í stað fyrir einnota plastvörur. Til dæmis, frekar en að nota einnota plastfilmu til að vefja utan um samlokuna þína, er hægt að nota sílíkon vefjur eða vefjur úr tauefni sem hefur verið styrkt með býflugnavaxi (en svoleiðis er meira að segja hægt að dunda sér við að búa til heima!)
Munum að þetta gerum við vegna þess að okkur þykir vænt um umhverfið okkar. Að reyna að gera sitt besta er nú þegar stórt skref fram á við og það hjálpar plánetunni okkar sannarlega.
Langar þig að gera eitthvað meira? Til er fjöldinn allur af alþjóðlegum herferðum og samtökum sem berjast fyrir að draga úr plastúrgangi í heiminum!
*Grein birtist fyrst á European Youth Portal og hefur verið þýdd úr ensku